Hver er víggirtur í túninu heima ?

Margur heldur að forystusauður sé sá sauður sem fer fyrir hjörðinni af fjalli og fyrstur inn í réttirnar. Á það hefur verið bent af reyndum smalamönnum að það sé alls ekki reyndin heldur sé sá sauður forystusauður sem sýni hinum rollunum hvernig hægt sé að smjúga undir eða stökkva yfir girðingar. Eiginleg merking orðsins heimskur er líka sá sem heima situr og gerir enga tilraun til að brjótast út. Það eru líka til menn sem ferðast um allan heim en skilja skynfærin eftir í túninu heima og á sama hátt eru til menn sem ferðast vítt um hugarheima án þess að hreyfa sig spönn. Í fjallamyndum Jónasar Viðars er fjallið oft sýnt sem sjónarrönd eða "silouetta". Með einföldu línuspili sem formar fjallið er gefið í skyn að það búi eitthvað bak við það. Það veit Jónas því hann fór fjallabaksleiðir sunnan Alpafjalla. Hann yfirgaf túnið heima og það sem meira er - tók skynfærin með meira en eina dagleið og málaði myndir af fornum minnum og fjöllum úr fjarska sem eitt sinn var æskuparadís.

Það sem er bak við ystu sjónarrönd, er stundum líka það sem maður tekur með sér í farteskinu. Jónas Viðar segir í nýlegu tímaritsviðtali: "Vaðlaheiði er séstakt fjall. Vinur minn sagði að hún væri ljótasta fjall á Íslandi en ég er ekki sammála því. Það er eitthvað við hana sem heillar mig. Kannski er hún svona falleg vegna þess hve látlaus hún er í stærð sinni en kannski er það bara æskurómans því hún blasti alltaf við mér út um gluggann þegar ég var ungur drengur á Akureyri" Jónas Viðar stendur á fleiri sjónarhólum - málar fleiri fjöll - en segir sömu söguna: Hvað er bak við ystu sjónarrönd?

Síðar í sama viðtali segir hann: "Fyrir þeim sem alast upp í þéttbýli eru kindur allar eins, það er sami svipurinn á þeim öllum þegar þú ekur fram hjá þeim á þjóðvegum landsins. En þegar ég var í sveit hjá frænku minni fyrir austan komst ég að því að hver kind er einstök persóna sem á sitt nafn og sína sögu. Ég er því með þessum myndum að sameina tvennt, borgarsjónarhornið og sveitarómantíkina. Á mínum myndum á því hver kind sitt nafn." Þessi árátta mannsins sem er með skynfærin úti og sér blæbrigðamuninn á öllum sköpuðum hlutum sem sumir sjá sem eitt og hið sama - lýsir þeim manni sem ekki er víggirtur eigin ofsóknarbrjálæði. Hann kann að sjá sérkenni og hlaða lýsingar með nútímaverkfærum jafnt sem sígildum.

Hann notar tölvur jafnt sem pensla við "portraitinn". Hvort sem þetta eru "fjallaportrait, kindaportrait" eða önnur "náttúruportrait". Hann lýsir verkháttum við nýjustu myndgerð sína á þennan hátt: "Ég fer á staðinn og tek mynd með ljósmyndavél. Hún getur verið af hrauni, fjalli eða malbiki - eitthvað úr náttúrunni. Ég tek ljósmynd og skanna eða nota bara stafræna ljósmyndavél. Eftirvinnsla fer fram í "photoshop" forritinu. Stundum fer himininn út, stundum er myndin skorinn til. Ég set inn texta sem segir að myndin tilheyri þessari myndröð sem er kölluð "portrait af Íslandi". Þegar myndin er klár er hún prentuð á þykkan pappír með striga áferð. Hún er síðan límd á MDF plötur. Þá er hún sprautulökkuð, til að byrja með tvær umferðir en síðan er farið yfir myndina með þunnum lit og látið þorna í um það bil hálftíma. Það er unnið í myndina með tusku til dæmis og svo er hún lökkuð aftur - Þetta ferli er endurtekið aftur og aftur en með mismunandi litum þannig að í raunnini, á endanum er tölvuverkið horfið og málverkið stendur eftir málað - lag eftir lag - lakk og litur. Myndin er í rauninni undirlagið sem skín í gegn.

Vígirðingar andans, túnið heima, rollurnar og fjöllin, náttúran og malbikið eru viðfang listamannsins. Hann er frjáls og ferðast, skiptir um sjónarhóla - sér í gegnum fjöll. Slíkt er eðli skapandi persónuleika.

goddur