Drungi og dulúð efniviðarins

Morgunblaðið Fimmtudagur 27. Apríl 2000

 

TVEIR listamenn deila með sér stóra salnum á hæðinni í Hafnarborg. Það eru Sólveig Baldursdóttir myndhöggvari og Jónas Viðar listmálari, en bæði dvöldu þau í Carrara, nyrst og vestast í Toscana-héraði á Ítalíu á árunum 1990 til 1994. Án þess að skipti höfuðmáli hvar frómur flækist verður ekki hjá því komist að sjá töluverð ítölsk áhrif í verkum beggja. Sólveig nýtir sér auðvitað marmaran frá Carrara í verkunum sem prýða stóra salinn, enda er Carrara með sínum fjögur hundruð marmaranámum mikilvægasta framleiðslusvæði þeirrar steintegundar í veröldinni. Jónas Viðar byggir stór málverk sín nær eingöngu á einlitum flötum, dökkum og gljáandi, og sver sig með því í ætt við hinn rómantíska þunglyndisstreng sem liggur eins og rauður þráður þvert yfir Ítalíu frá Genúu til Ravenna og litar allt þar fyrir norðan dumbri dulúð. Aðrir segja að hann liggji eilítið sunnar eða Frá Livorno þvert yfir skagann til Ancona á strönd Adríahafsins. Hvað sem er satt í þeim efnum breytir það litlu um það að málverk Jónasar Viðars eru eins og í beinan karllegg frá þeim Fetti, Rosa og Lissandriano. Vissulega er hann ekki einn um að fara þessa leið því obbinn af því málverki sem mótast hefur á síðustu áratugum á Ítalíu er með einum eða öðrum hætti tengt þeirri rómantísku dulúð sem þróaðist sem hliðarstrengur við meginæðina og lét svo lítið yfir sér að Ítalir voru aldrei sakaðir um rómantík. Þó svo að rekja megi allt aftur til Giorgione mjög skkýran, dramantískan streng með viðkomu hjá fjölmörgum norður-ítölskum meisturum er eins og menn vilji almennt ekki kannast við þess háttar tjáningarmáta hjá svo suðrænum mönnum. Sem forgrunnur þessara nær einlitu fleka standa höggmyndir Sólveigar eins og tilhöggnir sykurmolar, en svo hvítur sem marmarinn er frá Carrara þá minnir hann á risastóra bleikta sykurmassa. Þeir eru mýktir upp af listakonunni sem heggur þá lífrænt og grefur í toppa þeirra blómamynstur líkast einhvers konar signetti. Þessar mjallahvítu höggmyndir eru fullkomlega yfirlætislausar og ríma því býsna vel við málverk Jónasar Viðars. Einkum eru það einlitu myndirnar hans - samsetta myndröðin af sæbláma Mývatns og grænleitu mosamyndirnar tvær - sem eru eins og sniðnar til að vera sýndar með marmaramyndum Sólveigar. Þær bera af öðrum málverkum listamannsins sökum kyrrðarinnar sem í þeim ríkir. Jónas skeytir upphleyptum texta við málverk sín, neðst eftir fletinum endilöngum. Þar stendur Portrait of Iceland og sjö stafa númer sem byrjar á fimm núllum. Þar fyrir aftan er svo heiti kennileitisins ef eithvert er. Í litla salnum út af þeim stóra hefur Sólveig komið fyrir annars konar verkum, að vísu úr marmara, en að þessu sinni rauðbrúnum. Þetta eru fígúratífar höggmyndir og fara bil beggja, egypskrar listar og rómanskrar kirkjulistar. Á gagnstæðum vegg eru frustæðar fígúrur greyptar í blágrýtisflögur. Framan við sitjandi fígúru í hásæti með goðumlíkri ásýnd er ferhyrningur áf sandi sem mynstraður er með höndunum. Öll þessi uppsetning dregur dám af frumstæðri helgilist. Misslípun styttnanna eykur enn á þá túlkun. Verk þeirra Jónasars Viðars og Sólveigar færa okkur heim sanninn um að á milli íslenskrar og ítalskrar listar liggja margir leyndir þræðir. Afstaða beggja þjóða til nútímans sem tímaskeiðs á mörkum reglufestu fornra gilda og fullkominnar óreiðu samtímans er menningarlega séð allíhaldssöm. Svo virðist sem Íslendingar og Ítalir eigi það sameiginlegt að óttast þá tegun firringar sem fyrirgerir gömlum og grónum hefðum. Þau Jónas og Sólveig eru því væntanlega á heimavelli hvort sem þau kjósa að fylgja ítalskri hefð eða íslenskri því munurinn þar á milli virðist vera hverfandi.

Halldór Björn Runólfsson