KRÍTÍK MORGUNBLAÐIÐ 16.11.2004

 

HÚN er bráðfalleg sýningin hans Jónasar Viðar í Deiglunni. Verkin eru fagurblá, djúp og björt, áferðin spegilgljáandi og þokukennt landslagið rómantískt og leindardómsfullt. Um er að ræða lagskipt akrýlverk á MDF sem gefur hverju málverki ögn harðara yfirbragð en ef málað væri á striga. Að sama skapi gerir undirlagið það listamanninum líklega hægar um vik að ná því tæra yfirborði sem málverkin hafa. Fyrstu fjögur verkin á sýningunni eru eru reyndar aðeins frábrugðin hinum verkunum á sýningunni. Þau eru líkari eldri verkum Jónasar, dimmari og dramatískari, og gefa mótvægi við birtuna í öðrum myndum sýningarinnar.

Það eina sem út á þessa sýningu er að setja er að hún er ófrumleg. Bæði er efniviðurinn úthjaskaður, þ.e íslensk fjallasýn og íslenskt landslag í íslenskri birtu (reyndar minnir birtan dálítið á Miðjarðarhafið) og einnig er notkun Jónasar á texta inni á myndunum óðarfi. Málarar ganga oft í þá gryfju að halda að það að gefa málverkunum eithvað consept, styrkji verkin, þegar það í raun veikir þau.

Glöggir sjá fljótt skyldleika við Georg Guðna í þessum verkum Jónasar. Án þess að fara nánar út í þá sálma þá er það einkum hin skýra tvískipting flatarins, haf á móti himni, málunaraðferðin og þokukennd fjallasýnin sem minnir á þann listamann. Það getur tekið áratugi að finna sér skýrt afmarkaðan stíl í listum, en stundum þarf sáralítið til að smelli.

Þrátt fyrir skort á frumleika þá stendur hér eftir falleg vönduð sýning með hlýjum verkum sem listamaðurinn getur verið stoltur af.

Þóroddur Bjarnason